Um sundrungu mannkyns.

Góða kvöldið!

Mikið er nú yndislegt að sjá að fólk er á lífi.

Við skulum horfa á eitt, svo að ég noti nú mitt orðafar, og fái vonandi fleiri til þess.

Þegar við sem heild, sem sálnafjölskylda, sem ein heild af sálum sem lifum á yfirborði jarðarinnar.

Þegar við erum að mynda okkur skoðanir, þegar við erum að gefa okkur forsendur, þá er það jú það sem hefur hingað til og mun um einhvern tíma áfram valda sundrungu mannkynsins.

En við getum ekki bara myndað okkur skoðun fyrir okkur.

Heldur vil ég endilega að þið hafið sömu skoðun og ég, fyrir alla muni.

Ég setti þetta upp í byrjun vegna þess að allir vinnum við nú saman sem hér komum í gegn, og miklu fleiri en það, sem undirbúa þennan fund í hvert einasta skipti.

Því að þetta er miklu stærra heildarflæði heldur en það að minn geðþótti geti ráðið því hvernig fundurinn fer fram.

Það er reynt eftir bestu getu að búa til heild í orkunni.

Orkuheild sem getur hjálpað öllum þeim sem setjast hér inn að einhverju leiti, á einhvern hátt.

Það kann að vera að það sé eitthvert smáatriði sem einhver fær, og tekur nánast ekki eftir því að neitt hafi breyst.

Þó hann sé búinn að koma hér oft.

En svona þegar saman safnast í rólegheitum þá koma breytingar, og sumir segja að góðir hlutir gerist hægt.

Þar af leiðandi verð ég ávallt að vera í hlutlausu ástandi þegar ég stilli inn hingað þeirri orku sem ræður ríkjum á meðan á fundinum stendur.

Sú orka má aldrei hafa neitt að gera með til dæmis þá hluti sem ég síðan set fram eins og núna.

Við getum ekki ætlað öðrum, gefið öðrum orku nema í hlutlausu ástandi þegar við myndum okkur skoðanir, og tölum þær út.

Þó höfum við að sjálfsögðu allan rétt til þess.

Það er okkar fæðingarréttur eins og ég hef svo oft sagt hér.

En við verðum að virða það, að það er okkar skoðun og á meðan við erum ekki að valda neinum óþægindum, þá verðum við að leyfa öðrum að hafa skoðanir á móti.

Ef við völdum öðrum óþægindum, þá að sjálfsögðu förum við, en ekki sá sem við völdum óþægindunum.

Það er þannig sem orkan vinnur á jafnréttisgrundvelli.

Hins vegar ef við aðeins snertum við því, af því það var nú verið að ýja að pólitík hér fyrir stuttu síðan að ef við aðeins skoðum þann hlut, að þá eru stjórnmálamenn ávallt að segja öðrum hvaða skoðun þeir eigi að hafa, og hvað þeim eigi að finnast um þá og aðra í umhverfi sínu.

Sú skoðanamyndun getur aldrei verið heilbrigð í sjálfu sér.

Vegna þess að þegar stjórnmálamaðurinn er búinn að segja mér hvaða skoðun ég á að hafa, þá má ég ekki fara til hans og segja honum hvaða skoðun hann á að hafa.

Vegna þess að þá er ég bara að troða honum um tær, þó hann megi ganga yfir mig.

Það er ekkert jafnrétti í slíkum skoðanaskiptum.

Þess vegna erum við að benda fólki á það að ef það vill finna sinn innri frið, þá þurfi það líka um leið að finna hlutleysi fyrir að mynda sér eigin skoðanir án þess að vilja setja þær yfir til annarra og hlutleysi til þess að taka skoðanir annarra án þess að það hafi áhrif á það.

Þannig finnur fólk innri frið.

Annars eru þessar sendingar, hvort sem þær heita stjórnmál, viðskipti eða bara daglegt þras, ávallt að angra mig ef ég hef ekki hlutleysi gagnvart þeim.

Þetta felst í því að hafa skoðanaskipti. Það er þetta sem orka dagsins í dag er að hreinsa út.

Og það er þetta sem komandi tungl mun ennþá frekar hreyfa við.

Svo að samfélagið muni og geti þolað þá orku sem kemur inn með hrútnum upp úr miðjum þessum mánuði.

Því að þá, í minnkandi þessu tungli sem nú er að rísa fer að finnast fyrir þeirri breyttu orku sem hrúturinn mun koma með að þessu sinni og þar með munu kannski miklu kröftugri skoðanaskipti fylgja í kjölfarið fyrir þá sem ekki hafa fundið sér hlutleysi til skoðanaskipta.

Ég ætla nú að leyfa þessu að liggja með þessum orðum í kvöld, en að sjálfsögðu tek ég hverjar þær spurningar sem fyrir hendi eru og hugurinn ber fram.